Færsluflokkur: Umhverfismál
24.12.2008 | 12:11
Fjárfestingastofa aðstoðar erlenda fjárfesta án greiðslu og í trúnaði
Á Íslandi starfa "fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem sérhæfa sig í þjónustu við orkuiðnaðinn. Fjárfestar sem vilja nýta sér endurnýjanlega orku á Íslandi geta sótt í öflugan þekkingar- og reynslubrunn slíkra aðila við uppbyggingu orkufrekra fyrirtækja á Íslandi."
"Opinber þjónusta er til fyrirmyndar og margvísleg aðstoð stendur fjárfestum til boða. Ber þar að nefna starfsemi Fjárfestingastofu sem aðstoðar erlenda fjárfesta án greiðslu og í trúnaði."
Úr kynningarbæklingi Þjórsársveita. 12. nóvember 2008.
Fréttir berast annars héðan á erlenda álvefi.
Það væri athyglisvert að sjá fjármál íslenskra stjórnmálaflokka síðastliðinn 40 ár. Skyldu þessi - fjölmörgu fyrirtæki og stofnanir sem sérhæfa sig í þjónustu við orkuiðnaðinn - styðja stjórnmálaflokka? Grunurinn styrkist þegar stjórnmálaflokkar sinna ekki kröfum um að opinbera fjárstuðning til þeirra.
Alltaf hefur það verið undrunarefni að opinbert fyrirtæki, Landsvirkjun, skuli vera styrktaraðili annarra opinberra fyrirtækja. Því ekki að veita meira fé í opinber fyrirtæki beint - án milligöngu Landsvirkjunar?
Það vekur ugg hvað áltengd fyrirtæki eru æst að auglýsa sig í gegnum íslenska menningarstarfsemi...
Hvað er næst? Fréttaflutningur styrktur af Rio Tinto Alcan eða HRV Engineering, nú eða Landsvirkjun ?
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2008 | 01:51
Hver ber kostnaðinn?
Skekkt samkeppnisumhverfi um fjölbreytta atvinnustarfsemi
Fyrir austan sá STAR um þetta.. og er það ekki brot á samkeppni um fjölbreytni í atvinnustarfsemi að ríkið og fyrirtæki þess, Landsvirkjun, dæli peningum í álmessu? Því tekur Samkeppnisráð málið ekki fyrir?
Gjástykki
"Gjástykki er það svæði, sem í dag er minnst raskað og best varðveitt af þeim svæðum sem áætlað er að hefja boranir á miðað við fyrirliggjandi tillögur. Það er algjörlega óásættanlegt að hafist verði handa með jarðrask á því viðkvæma svæði sem í framtíðinni getur átt eftir að verða mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í Þingeyjarsýslum. Gjástykki er einstakt svæði til að nýta í tengslum við fræðslu og skilning á jarðfræði og landrekskenningunnni og þeim öflum sem í jörðinni búa." 9.11. 2006 : Úr bókun Ásbjarnar Þ. Björgvinssonar við 4. lið fundar byggðarráðs Norðurþings.
Jarðgufuvirkjanir til raforkuframleiðslu
"Jarðvarmaorkuver eru hagkvæmari en jarðgufuvirkjanir. Í þeim fyrrnefndu er framleitt bæði heitt vatn til upphitunar og raforka, sbr. orkuverin í Svartsengi og á Nesjavöllum, og þá er auðlindin líka best nýtt og á sem umhverfisvænastan hátt.
Jarðgufuvirkjanir eins og þær í Kröflu, á Hellisheiði og Reykjanesi framleiða eingöngu raforku, nýta varmaorkuna mun verr og eru ekki eins vistvænar." Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði og hefur starfað að jarðhitarannsóknum og -nýtingu í 40 ár. Fbl. 18. okt. 2007, bls. 32.
Nýting jarðhita til raforkuframleiðslu
"Þorsteinn benti á að við raforkuframleiðslu með jarðhita nýtist um 12% af orkunni sem kemur úr iðrum jarðar. Hin 88% fari út í umhverfið, fyrst og fremst í mynd varmaorku. "Mér finnst þetta ekki forsvaranleg nýting á auðlindinni," sagði Þorsteinn [Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands] ". Mbl. 18. okt. 2007.
Umhverfisáhrif af rannsóknarborun metin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.12.2008 | 16:03
Magnúsar þáttur ráðuneytisstjóra
Boranirnar þurfa eftir sem áður í umhverfismat en ákvörðun Skipulagsstofnunar um að þær sleppi undan sameiginlegu mati vegna Bakkabröltsins er hártogunarleið svipað og leyfið í Gjástykki tveimur dögum fyrir kosningar var pólitískur póker sjá frétt á ruv.is 4. sept. 2007. Áður hafði borunum í Gjástykki verið gert að sæta umhverfismati sjá frétt á ruv.is 18. júlí 2007.
"Magnús segir ennfremur að nú sé ljóst að ekkert standi í vegi fyrir því af hálfu stofnana hérlendis að boranirnar sem verða að fara fram á sumrin, geti hafist næsta sumar."
Hvers konar skilningur er þetta hjá Magnúsi á tilgangi mats á umhverfisáhrifum?
Hjá framkvæmdaraðilum kemur einatt fram sá skilningur að það að meta áhrif á íslenskt umhverfi sé "töf" og iðulega er það þeim "vonbrigði" ef þeir sleppa ekki undan því. En þegar ráðuneytisstjórar eru farnir að tjá sig á þann máta er eitthvað meiriháttar að. Kannski ættu ráðherrar í það minnsta og allra fyrst að skipta um ráðuneytisstjóra þegar þeir setjast í embætti...
Sjá: Rannsóknaborunum skotið undan í skjóli orðsins "samtímamat"
Engin töf vegna borana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.12.2008 | 11:27
Rannsóknaborunum skotið undan í skjóli orðsins "samtímamat"
Í Mogganum laugardaginn 20. des. birtist frétt á bls. 5 með fyrirsögninni "Gegn úrskurði Þórunnar" og er fréttin fremur takmörkuð.
Skipulagsstofnun hefur ekki ÚRSKURÐAÐ í nokkur ár því breytingar á umhverfismatslögunum 106/2000 tóku gildi 1. október 2005 og stofnunin hefur ÁKVARÐAÐ síðan.
Fréttin er sögð unnin upp úr "tilkynningu" frá Skipulagsstofnun og ekki leitast við að upplýsa LESENDUR blaðsins frekar um hvar ákvörðunina er að finna. Það skal upplýst að hún er á vef Skipulagsstofnunar og að kærufrestur er til 14. janúar 2009.
- 4 holur við Kröflu
- 3 holur í Gjástykki
- 4 holur á Þeistareykjum
Þegar ákvarðanirnar eru lesnar kemur í ljós að umhverfisáhrifum vegna borunar rannsóknahola er skotið undan SAMEIGINLEGU mati á umhverfisumróti vegna álbakka (tímamótaúrskurður umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008) að því er virðist í skjóli orðsins "samtímamat". Boranirnar eru álitnar forleikur. Nokkuð umfangsmikill forleikur því hér er um allt að 11 holur að ræða. Rannsóknaholur og boranir gerast ekki ókeypis og spurning hver borgi bröltið. Lánadrottnar?
Umhverfismál | Breytt 6.1.2009 kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2008 | 19:29
Nei, ekki besta ráðherrann, Þórunni !
Það væri merki um að þessir pólitíkusar fatta gjörsamlega aldrei neitt.
Þórunn er besti umhverfisráðherra sem við höfum haft frá upphafi. Vinnubrögð hennar eru vönduð og hún er samkvæm sjálfum sér í umhverfismálum, sem verður ekki sagt um fyrirrennara hennar. Hún er nánast okkar eina reisn í þessari ríkisstjórn.
Við vitum jú öll að ansi margir virkjunarforkálfar vilja hana burt enda hafa þeir alltaf fengið að valsa frítt í íslenskri náttúru eins og naut í flagi.
Uppstokkun fyrir áramót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2008 | 00:31
Votlendi er mikilvæg náttúruauðlind og forsenda fyrir ríkulegu og fjölbreyttu gróðurfari og dýralífi
Endurheimt votlendis hefur verið á dagskrá margra náttúruverndarfélaga, svo sem Fuglaverndarfélags Íslands enda byggja yfir 90% íslenskra varpfugla, umferðarfugla og vetrargesta, afkomu sína að einhverju eða öllu leyti á votlendi. Nú síðast hefur endurheimt votlendis verið sett á dagskrá náttúrusjóðsins Auðlindar, sem stofnaður var 1. þessa mánaðar.
Í skýrslu sem gefin var út af nefnd um endurheimt votlendis 2006 kemur fram að "Frá 1941 hafa verið grafnir u.þ.b. 32.0000 km af skurðum til að framræsa mýrar. Talið er að flatarmál þess votlendis sem hefur verið framræst sé yfir 4000 km2. Allt fram til ársins 1987 var framræsla styrkt af ríkinu. Þegar styrkveitingar lögðust af var búið að framræsa stóran hluta alls votlendis á láglendi."
Alþjóðlegi votlendissamningurinn eða Ramsarsamningurinn fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa og er Ísland aðili að honum síðan 1978. Lesa má um samninginn í : Ramsarsamningurinn og votlendissvæði á Norðurlöndunum. Um verndun og aðra landnýtingu (2004).
8. desember 2008 voru Ramsarsvæðin í heiminum 1822 og náðu yfir 168 þúsund hektara en aðeins eru þau 3 á Íslandi : Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður (Leirárvogar).
"Verulegur hluti gróins lands á Íslandi er einhvers konar votlendi, en auk mýrlendis tejast til votlendis samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu hvers kyns vötn, fjörur og grunnsævi út á 6 m dýpi. Í þessari grein er lýst helstu búsvæðum íslenskum sem flokkast undir votlendi. Getið er rannsókna sem fram hafa farið frá því að yfirlit um íslensk votlendi var síðast tekið saman, árið 1975 (Rit Landverndar 4). Lýst er helstu þáttum sem ráða gerð votlenda og þar með lífríki þeirra. Fjallað er um fæðuvefi, einkum með tilliti til votlendisfugla." bls. 13, Íslensk votlendi. Verndun og nýting 1998 (Arnþór Garðarsson).
Þórunn getur talað með reisn í Poznan enda nýbúin að leggja fram náttúruverndaráætlun 2009-2013 um friðlýsingu 13 svæða á Alþingi (sjá Flott hjá henni).
Umhverfisráðherra á þingi SÞ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 23:23
Aðalóvinurinn umhverfismat?
1. ágúst 2008 :
"Umhverfisráðherra hefur úrskurðað að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum beri að meta sameiginlega umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur."
Áróður gegn umhverfisráðherra hefur verið þungur síðan í ágúst og þrýstihóparnir margir og sterkir.
Stóriðjuþrýstingur gjörnýtingarsinna
6. október 2008 :
Óli Björn Kárason, titlaður blaðamaður, er með úrræði (sem er alla jafna ekki hlutverk blaðamanna) í Kastljósi 6. október 2008: "Ég held til dæmis að það eigi að afnema lög um umhverfismat þannig að það sé hægt að taka ákvörðun um að ráðast í stórvirkjanir og álver..."
Spyrjandinn (Sigmar) : "Já, það er sem sagt alveg innstæða fyrir því að það eru miklar náttúruauðlindir hérna í landinu og það verður vafalítið minni mótstaða fyrir því að virkja þær með einum eða öðrum hætti." Útdrættir úr Kastljósi 6. október 2008.
11. október 2008 :
"Alþingi getur sett sérlög um ákveðnar framkvæmdir, líkt og gert var um Kárahnjúkavirkjun," er haft eftir Halldóri Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar (síðan 1. janúar 2007), á vísir.is 11. okt. 2008.
11. október 2008 :
"Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að norska fyrirtækið [REC Group sem vill byggja sólarkísilverksmiðju í Þorlákshöfn] hafi fengið þau svör frá umhverfisyfirvöldum að það tæki sex til átján mánuði að vinna umhverfismat vegna verksmiðjunnar. Þetta voru ekki fagleg vinnubrögð. Við förum eindregið fram á að þetta endurtaki sig ekki."" er haft eftir honum í frétt á vísi.is 11. okt. 2008. Hvað? Hvað eru ekki fagleg vinnubrögð? Að hvað endurtaki sig ekki?
"Hann [Vilhjálmur Egilsson] segir að ekkert verði eins og það var áður eftir atburði dagsins," er fyrirsögn fréttar á Stöð 2 : "Tími sparðatínings í íslenskri stjórnsýslu er liðinn og fara verður í allar framkvæmdir sem í boði eru, þar á meðal álvera í Helguvík og á Húsavík," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmastjóri SA, þar. Hann talar eins og framkvæmdirnar séu ókeypis.
Þetta er nákvæmlega samkvæmt uppskrift The Shock Doctrine, sem Naomi Klein hefur skrifað um : Myndband.
13. október 2008 :
Það er sótt að umhverfisráðherra úr öllum áttum. Hún "flækist fyrir" þessum herramönnum.
17. október 2008 :
Hví öll þessi læti, jú, Tillaga að matsáætlun fyrirhugaðs álvers á Bakka, sem HRV Engineering útbjuggu fyrir Alcoa, var á leiðinni í Skipulagsstofnun.
Verkfræðistofur
HRV Engineering, þ.e. Hönnun, Rafhönnun og VST sem auglýsa saman á vef sem aldrei hefur verið á íslensku: "We have played a leading role in all three of Iceland's Aluminum Smelter plants, numerous geothermal power plants, hydroelectric power plants, high-voltage power transmission lines, road infrastructure, public utilities and waterworks, harbor construction, airport development and much more."
Verkfræðistofurnar ganga grimmt í eina sæng: "Mannvit byggir á grunni þriggja verkfræðistofa sem stofnaðar voru á sjöunda áratug síðustu aldar: Hönnunar hf. (1963), Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. (1963) og Rafhönnunar hf. (1969). Tvö fyrstnefndu fyrirtækin sameinuðust í fyrirtækið VGK-Hönnun 2007 og nú hefur Rafhönnun bæst í hópinn."
"Vatnsaflsvirkjanir hafa alltaf verið stór þáttur í starfsemi VST," segir á vef stofunnar og ennfremur að hún sé "elsta og jafnframt ein stærsta verkfræðistofa landsins og hefur ávallt verið í fararbroddi verkfræðistofa við mannvirkjagerð á Íslandi."
Það er engin tilviljun að verkfræðistofurnar spretta upp á sjöunda áratugnum:
"Árið 1965 hófst þriðji kaflinn í raforkusögu Íslands, tími stórvirkjana og orkuvinnslu til stóriðju, og stendur hann enn yfir. Orkuvinnsla jókst nú hraðar en dæmi höfðu verið um áður. Í upphafi tímabilsins var stofnað opinbert fyrirtæki, Landsvirkjun, til að reisa og reka þessar virkjanir." Útdráttur úr bókinni Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eftir Helga M. Sigurðsson og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (VST) gaf út árið 2002 á sjötugsafmæli sínu.
Hver skyldi tilgangurinn vera með mati á umhverfisáhrifum?
31. október 2008 : Áhangendur álbræðslulausnarinnar virðast vera annaðhvort ólæsir eða óhugsandi. Þeir líta á mat á umhverfisáhrifum sem óþarfa TÖF og kostnaðarsama (framkvæmdaraðili þarf að borga brúsann). Sjá frétt á Vísi um frestunina.
Hvað er svona erfitt að skilja? Umhverfismat er okkar hagur, þ.e. ef okkur er annt um umhverfið; hreint loft, land, vatn og fegurð. Það hefur öllu verið klúðrað í fjármálum landsins og varla við það bætandi að klúðra öllu í umhverfismálum líka. Loforðin voru mörg og svæðin sem friðlýsa á (náttúruverndaráætlun) eru hluti af efndunum sem umhverfisráðherra kynnti um daginn.
"Lögum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Matinu er einnig ætlað draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. Ennfremur að kynna umhverfisáhrif framkvæmda fyrir almenningi og stuðla að því að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir." Sjá vef Skipulagsstofnunar.
Við erum ekki ein í heiminum og auðhringir tengja okkur við umheiminn á dapurlegan hátt. Álið sprettur ekki upp af sakleysi. Báxítvinnslan nærist á arðráni og spillingu.
Umhverfismál | Breytt 11.12.2008 kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 09:33
Norðmenn hafa selt hlut sinn í Rio Tinto
Rio Tinto dregur saman seglin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.12.2008 | 16:56
Hvenær segja Árni, Björgvin og Davíð af sér?
Hvernig gátu tveir ráðherrar, viðskiptaráðherra (Samfylkingar) og fjármálaráðherra (Sjálfstæðisflokks), tekið skóflustungu að enn einni álbræðslu, nú í Helguvík, sem hefur hvorki fengið starfsleyfi né losunarheimildir... sem sætir þess utan stjórnsýslukæru vegna útgáfu byggingarleyfis? Að ekki sé talað um Stjórnarsáttmálann: "Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda."
Eiga útlendu álauðhringirnir (Century Aluminum, Alcoa, Rio Tinto Alcan...) íslenska ráðherra? Það mætti þakka fyrir að heimskreppan bítur auðhringina því þrýstingur frá Framsóknarflokki er mikill (samanber Siv nú áðan á þingi) og orkugeirans sem teygir anga sína af áfergju í stjórnarflokkana.
Haft var eftir viðskiptaráðherra: "Björgvin segir byggingu álversins ekki í andstöðu við stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum [nú?], enda hafi undirbúningur þess verið langt kominn [og?] við síðustu kosningar, aldrei hafi verið ætlunin [nú?] að slíta það ferli úr sambandi." (Mbl. 7. júní, bls. 8). Hvernig tekst umhverfisráðherra að vinna í þessu umhverfi?
Björgvin hefði mátt lesa ályktun flokks síns og blaðamenn mættu að ósekju kynna sér hana því þetta hljómar sem kosningasvik:
"Samfylkingin vill að frekari stjóriðjuáformum verði slegið á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildaráætlun yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Tryggð verði friðun Þjórsárvera, Langasjós, Jökulsár á Fjöllum, Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.
Loftslagsváin er nú helsta sameiginlega úrlausnarefni mannkyns. Samfylkingin vill tímasetta metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar." segir í Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar frá 2007.
Fjármálaráðherrar á davíðstímum hafa allir verið úr Sjálfstæðisflokki: Friðrik Sophusson (1991-1999), Geir H. Haarde (1999-2004), Árni M. Mathiesen (2004-2008).
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2008 | 20:49
Lýðræðisútrás á Alþingi og merk náttúruverndaráætlun
Eftir lýðræðisútrás á Alþingi mælti umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrir merkri náttúruverndaráætlun 2009-2013 (kl. 17.28). Langisjór og Þjórsárver eru meðal 13 svæða sem verndinni er ætlað að ná til og orkugeirinn hefur lengi ágirnst. Þá er eftir að sjá hvernig til tekst.
Vert er í því sambandi að minna enn á stjórnarsáttmála: "Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna."
Tjáningin tók á sig margar myndir í dag og fær mbl.is vinninginn fyrir vandaða umfjöllun í meðliggjandi frétt (kl. 16.12) og á sjónvarp mbl.is (kl. 17.41). Menn eru að meiri.
Álfheiður Ingadóttir spurði við fyrri umræðu um Teigskóg (birkiskógur) og friðlýsingu viðkvæmra hafsvæða, sérlega kaldkórallasvæði. Svar Þórunnar var jákvætt. Álfheiður nefndi tvö nöfn sérstaklega varðandi velheppnaðar nafngiftir á mosum og fléttum, Hörð Kristinsson og Bergþór Jóhannsson.
Þingfundur hafinn á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)