Færsluflokkur: Umhverfismál
14.4.2009 | 08:35
Einkennilegt
Ætlunin er, ef ég skil rétt, að leggja í gífurlegan kostnað við lagningu sæstrengs frá Bandaríkjunum og byggja flæmistór geymsluhús fyrir gagnaver á bráðlifandi jarðskjálfta- og eldgosasvæði... eitthvað ekki í lagi?
Samkvæmt fréttinni kostar hvert starf 1 MW, þ.e 50 störf 50 MW, 200-300 störf 300 MW... og hvar ætla refirnir að kreista þau út úr íslenskri náttúru? Er þetta til viðbótar við allt það orkufrekasta sem þeim dettur í hug að troða inn á okkur?
Eitt hljómar þó kunnuglega enda gatslitið í meðförum álverssinna: "muni skipta Íslendinga gríðarmiklu máli við uppbyggingu atvinnulífsins og sköpun nýrra starfa". Þetta er ameríska setningin sem á að selja dæmið. Stjórnmálamenn elska að fara með þennan boðskap og það hefur frést að þeir hér á Íslandi gleypi hana hrátt. Hér sé allt hægt að kaupa og spillingin gríðarleg.
Stór viðskiptavinur í hendi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2009 | 10:04
Flokksdýr
Það er ekkert ógeðfelldara en flokksfundir þar sem allir hrópa húrra í kór eða klappa bara af því að það er það sem flokksdýr gera í sameiningu. Valda- og vinsældahlutföllin virka í botn, ekki innihaldið. Þetta kom t.d. skýrt fram hjá sjálfstæðismönnum sem klöppuðu fyrir sínum gamla jafnvel þótt þeir hafi ekkert endilega verið sammála... Heittrúnaðurinn er heilbrigðri skynsemi yfirsterkari.
Við maraþonið á Alþingi kemur fram að aðalatriðið er ekki að fara fram með rökum heldur að fikra sig eftir flokkslínu með öllum ráðum, þar gengur að hliðra til sannleikanum, fara allt í kringum hann eða forðast hann beinlínis. Hugsun þingmannsins eða sannfæring er ekki aðalatriðið en flokkslínan er það. Það er afar flókið að sannfæra einhvern fyrir tómu húsi og nægir rándýrt framsögunámskeið ekki til. Innihaldslaus er framsagan sárgrætileg.
Þessi flokksandi er í sjálfum sér stórhættulegur því aðalatriðið týnist og sannleikurinn skiptir ekki lengur máli. Allt leyfist en málið er að leyna því sem ekki þolir dagsljós. Fjölmiðlarnir létu lengi að stjórn og voru ekkert að krafsa óþægilega en nú virðist ýmislegt hafa breyst og það þrátt fyrir trygga flokksmenn á réttum stöðum. Fjölmiðlarnir eiga sér aðhalds- og upplýsingahlutverk sem rímir illa við flokkshagsmuni.
Flokkarnir virðast ráða skoðunum sinna flokksmanna, þeir eru sammála án þess að vita almennilega hvers vegna.
Það er eitthvað við Helguvíkurdæmið og mengunarkúgunina (kallað: "Hagsmunir Íslendinga í loftslagsmálum") sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi. Við vitum að allt er þar á haus, vanhugsað og í öfugri tímaröð. Hamast áfram með frekju að venju og áróðurinn þungur. Meðölin nokkurn veginn þau sömu og vanalega. Björgvin og Árni í ráðherraleik fengu að leika sér með skóflu og hvaðeina... En það er eitthvað sem ekki er sagt... eitthvað sem enginn vill almennilega segja... Hafa enn verið gerðir samningar fyrir luktum dyrum?
Einkavæðingin hefur eflaust leikið bæi og ból á Reykjanesi illa en samt... Er ekki kominn tími til að hugsa sinn gang, viðurkenna mistök og draga í land? Eigum við ekki betra skilið en að vera fórnað á altari stóriðjunnar?
Ríkisstjórn skipaði stóriðjunefnd undir forystu Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra árið 1961. Það var hún sem gerði samning við alþjóðlega fyrirtækið Alusuisse. Fyrirtækið reisti álver við Straumsvík og opinbert íslenskt fyrirtæki, Landsvirkjun, sá því fyrir orku. Fyrsta stórvirkjun landsins, Búrfellsvirkjun, var gangsett árið 1969.
Einum 25 árum síðar var farið að huga að umhverfisáhrifum framkvæmda en lögunum frá 1994 fylgdi hið fræga bráðabirgðaákvæði, sem hleypti stórvirkjunum í gegn án teljandi vandræða. Allar síðari breytingar miða að því að gera lögin hin þægilegustu.
Þó má merkja vaxandi áhyggjur af ýmsum toga út í hinu óstillta þjóðfélagi. Ómengað vatn og hreint loft er sjálfsagður hlutur. Hlýja í húsum og fallegt sundlaugarvatn sömuleiðis. Hitaveitan er velheppnuð og hugsuð til handa okkur öllum. Heitt vatn í hvers manns krana. Náttúrufegurð út í hið óendanlega. Allt þetta er okkar meðan birgðir endast...
Áhyggjurnar eru ekki ástæðulausar. Það gustar um fertugan stóriðjukaflann í raforkusögu Íslands. Það stendur ekki steinn yfir steini. Össur og Siv eru jafn hættuleg og þingmennirnir sem flykkjast í stóriðjugarðinn. Það er djúpt á umhverfistauginni. Allt er klækir og undanbrögð. Það er ekki lengur viturt fólk á þingi.
Er ekki kominn tími til að söðla um og hörfa frá stórlánaframkvæmdum á margfaldri ábyrgð Íslendinga...
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2009 | 13:35
Skoðanakannanir í boði...
...hvers?
Mætti íhuga tímasetninguna (bíður seinni umræðu á Alþingi), þrýstihópana (fjöldamargir) og yfirleitt framkvæmd skoðanakannana á færibandi: skoðanakönnunin kemur hér með síðbúið veganesti Helgavíkurmálsins á Reykjanesi, skilaboðin eru : fólkið almennt vill þetta ! Þar með er afsökunin komin í miðjum klíðum en á réttu augnabliki og þrýstnir hagsmunaaðilar geta bitið ánægðir í skottið á sér. Það hugsar enginn öðruvísi en þeir - enginn, aldrei, öðruvísi en í þögn
Hvað segja umsagnaraðilar sem svöruðu til iðnaðarnefndar Alþingis varðandi útsöluna? Aðgangur er veittur að erindum þegar nefnd hefur tekið þau fyrir á fundi.
Hvað segja umsagnaraðilar sem svöruðu til umhverfisnefndar Alþingis varðandi leyfilegt mengunarþol Íslendinga? Aðgangur er veittur að erindum þegar nefnd hefur tekið þau fyrir á fundi.
Meirihluti vill álver í Helguvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 13.4.2009 kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2009 | 10:33
Hefur ein siðanefndin fjallað um notkun skoðanakannana?
Framkvæmd þeirra er auðveld, þú bara hringir og spyrð og segir svo sjálfur frá... eins og þér sýnist og lætur boðin síðan berast eftir því sem þér hentar eða þínum stóra vini.
Tímasetning skoðanakannana er ekki alveg saklaus, framkvæmd þeirra ekkert vesen og laus við allt regluverk (símakönnunin þín) og tíðni sömuleiðis lítið mál, krakkarnir hringja bara fyrir þig, þau eru jú þegar á þínum vegum og kosta því ekkert.
Skoðanakannanir fyrir kosningar eru sérstaklega skemmtilegar, kjósendur vita jú ekkert hvernig á að kjósa og því gott að þeir viti (helst daglega) hvert meirihlutinn stefnir eða hættir við að stefna ekki. Seint verður það skafið af þeim blessuðum, áhrifunum sem hrífa ólíklegustu öfl.
Skoðanakannanir eru álitnar kosningaáróður og því bannaðar með öðrum áróðri síðustu vikuna fyrir kosningar, alla vega sums staðar. Hugsunin er eflaust sú að kjósandinn eigi að fá frið til að gera upp hug sinn.
Hver tekur ákvörðun um skoðanakönnun? Þegar um hagsmunamál einhverra er að ræða, spyrðu bara rétt og á réttum tíma, þú ert ekkert að flækja þetta og úrvinnslan hreint eins og étin kaka.
Hver vill álver í Helguvík samkvæmt símakönnun Fréttablaðsins frá því á þriðjudag? Má bjóða þér nýjar hugmyndir og lausnir? Helgarblaðið? Draumalandið? Þig?
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hróp um Helguvík ! Helguvík ! og á(l)kvæði í loftslagsmálum fyrir óhefta stóriðju og það ekki bara til 2012... Þetta er það tvennt sem þrýst er á þessa dagana á Alþingi í skugga kreppunnar. Er kverkatak á þjóðfélagi í sjokki vænlegt til sigurs í komandi kosningum? Er bókstaflega allt leyfilegt?
Hvað hefur gripið þingmenn og ráðherra? Álversatvinnuáróðurinn er okkur dýrt spaug. Ekki fyndið.
Það er ekki lengur til siðs að menga óheft og er reynt að hafa hemil á menguninni á heimsvísu. Álver þrífast ekki lengur án mengunarkvóta og því er þrýst á um á(l)kvæðið í loftslagsmálum hér af áköfum þingmönnum eða leyfi skjólstæðinga þeirra til að menga 10% meira... eða 1,6 milljónir af gróðurhúsalofttegundinni CO2 að meðaltali á ári...
Hvað er annars í útblæstri frá álveri? Þar er ekki bara gróðurhúsaloftegundin koltvíoxíð (CO2), þar er einnig brennisteinstvíoxíð (SO2), loftkenndur flúor (HF), svifryk (PM10), vokvetniskolefni (B(a)P). Hvað er í frárennsli frá álveri í sjó? Vokvetniskolefni (PAH) enn. Svæðið í kringum álver þar sem mest mengunar gætir er kallað "þynningarsvæði". Byggð þrífst því ekki innan þess. Áætluð álver sem reynt er að þrýsta í gegn eru í nágrenni við byggð.
Væri ekki fremur eðlilegt að Íslendingar gerðu kröfu um heilbrigt umhverfi fyrir sig og sína?
Hagsmunirnir eru erlendra álfyrirtækja sem eru reyndar komin inn að kviku, í sjálf stjórnarskrármálin okkar. Þeir hagsmunaaðilar ríða húsum víða. Álver eru orkufrek og eru orkufyrirtæki og verkfræðistofur þeirra helstu þrýstihópar, sem eru svo aftur skjólstæðingar stjórnmálaflokkanna, sem svo aftur eiga sér þingmenn á ört deyjandi þingi.
Álver krefjast mikillar orku, þ.e. jarðgufuvirkjana eða vatnsaflsvirkjana. Þær fyrrnefndu losa brennisteinsvetni (H2S) í miklu magni út í andrúmsloftið og nýta illa auðlindina (12%). Sú mengun er opinbert leyndarmál og reiknast ekki enn í mengunarkvótann. Vatnsöflun fyrir vatnsveitu jarðgufuvirkjana, frárennsli frá borholum við borun og prófanir geta haft áhrif á vatn. Ofnýting jarðhita getur einfaldlega tæmt geyminn. Vatnsaflsvirkjanir eru margra tegunda en flestar eru þær umhverfiságengar. Baráttan er um vatnið.
Helguvík bíður en þingmenn hrópa upp til hópa : Helguvík ! Helguvík !
Loftslagsmál: hagsmunir þrýstihópa um álver á Íslandi verður það á næstunni
Hlustið á umræður á Alþingi um þessi mál.
Umhverfismál | Breytt 9.4.2009 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hagsmunir orkufyrirtækja og erlendra álfyrirtækja eru lykilorðin varðandi íslensk loftslagsmál... fremur en heilbrigt umhverfi og heilsa Íslendinga sjálfra. Hafa svokallaðir umhverfissjúkdómar verið kannaðir á Íslandi? Hagsmunir Íslendinga hljóta að vera góð heilsa, eða hvað?
Telst hið svokallaða íslenska ákvæði sem "heimilar útstreymi allt að 1,6 milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundinni CO2 að meðaltali á ári" heilsusamlegt fyrir Íslendinga?
Hverjir eru annars í umhverfisnefnd ? Nefndarmenn eru níu, tveir úr Samfylkingu, þrír sjálfstæðismenn, einn frá frjálslyndum, einn frá Framsókn, einn utanflokka og einn vinstri grænn. Uppskriftin er pólitískt púsluspil sem hefur lítið með umhverfið að gera. Formenn og varaformenn nefnda er síðan valdaspil sem endurspeglar yfirleitt munstur ríkisstjórnar. Ekkert af þessu hefur neitt með málefnið að gera.
Fimm undirrita álit meirihluta nefndarinnar og tekið er fram að þingmaður frjálslyndra hafi verið fjarverandi. Það er Kristinn H., utanflokka á þingi, sem kemur Framsókn og Sjálfstæðisflokknum til hjálpar. Hann er sá 5.
Tvær undirrita álit nefndarmeirihlutans sem ekki eru í umhverfisnefndinni samkvæmt alþingisvefnum, Helga Sigrún Harðar (F) og Ólöf Nordal (S). Ef þær eru varamenn fyrir Eygló Harðar (F) og Jón Gunn (S) ætti það að standa á vefnum öðrum til upplýsingar... þingið er jú ekki prívatpartí valdablokka, eða hvað?
Seta Ólafar Nordal er fremur óheppileg því hennar eiginmaður er forstjóri Alcoa ... sem gæti hugsanlega gert þingstörf hennar í loftslags- og álversmálum tortryggileg... og auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár er væntanlega ekki vinsælt á þeim bæ... Ef hún kallar Helguvík ! Helguvík ! í kór með hinum, þá er það í mesta sakleysi. Helguvík er jú Century Aluminum dæmi og Alcoa þar hvergi nærri, ekki satt? ...kannski annars staðar... en þegar hún er svo allt í einu komin í umhverfisnefnd sem ályktar um íslenska á(l)kvæðið í loftlagsmálum... en það er satt, hún er ekki ein.
Enn á nefndarálit minnihluta umhverfisnefndar eftir að koma fram.
Þar sem þetta er þingsályktunartillaga er aðeins síðari umræða eftir.
Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 9.4.2009 kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2009 | 00:35
Sameign íslensku þjóðarinnar
- Össur Skarhéðinsson : Breytingu á lögum á auðlinda- og orkusviði (opinbert eignarhald auðlinda) 58/2008
Fleiri lög fjalla um eignarrétt ýmist íslenska ríkisins eða íslensku þjóðarinnar :
- Hjörleifur Guttormsson : Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins 73/1990 :
1. gr. "Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki."
- Halldór Ásgrímsson (38/1990) : Lög um stjórn fiskveiða 116/2006
1. gr. "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."
Þjóðlendulögin eru ekki eins vinsæl:
- Davíð Oddsson Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta 58/1998.
- Finnur Ingólfsson Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu 57/1998 og þá sérstaklega 3. gr. þeirra laga: "Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.")
Þau karpa um "þjóðareign" því ekki sameign íslensku þjóðarinnar ?
Orkulindir ekki teknar upp í skuld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2009 | 11:22
Í landi erlendra álfyrirtækja...
... og íslenskra leppa.
Í níu manna iðnaðarnefnd eru þrír sjálfstæðismenn, þrír úr Samfylkingu, einn úr Framsókn, einn úr Frjálslyndum og einn vinstri grænn.
Hvað má standa í stjórnarskrá Íslands samkvæmt Century Aluminum varðandi náttúruauðlindir Íslands ? Erlend álfyrirtækin eru beðin um að veita umsögn um auðlindagreinina nýju í stjórnarskrá Íslands... Hagsmunaaðilar þvælast fyrir þjóðarhagsmunum.
Nefndarálitum minnihluta og meirihluta iðnaðarnefndar um heimild til samninga um álver í Helguvík hefur verið útbýtt á Alþingi. Sjá nánar feril máls.
Samkvæmt síðustu gerð stjórnskipunarlaganna er 1. greinin, sem er ný grein er varðar náttúruauðlindir Íslands, svohljóðandi :
"Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi."
Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.
- Breytingartillaga 917 (Kristinn H. Gunnarsson 6. apríl) :
Við 1. grein. Greinin orðist svo:
"Öll verðmæti í sjó, á sjávarbotni og undir honum innan efnahagslögsögu eru þjóðareign, svo og þjóðlendur, námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi. Aðeins er heimilt er að ráðstafa verðmætum skv. 1. mgr. til afnota tímabundið og gegn gjaldi samkvæmt nánari ákvörðun í lögum. Sala þeirra eða önnur ráðstöfun er óheimil. Eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skal að öðru leyti skipað með lögum. Tryggja ber landsmönnum öllum rétt til umgengni og útivistar í landinu."
Sjá ennfremur: Helguvík
Nefndarálit minnihluta iðnaðarnefndar varðandi Helguvík (pdf-skjal).
Alfarið á móti álverssamningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 7.4.2009 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2009 | 08:58
Gamlir kunningjar...
Sjálfstæðismenn virðast halda að Íslendingar kunni ekki að lesa en ekki hef ég þó heyrt þá þylja upp úr umsögn Century Aluminum... enn. Óttast kannski áhrifin í beinni útsendingu?
Hvílík lágkúra, erlend álfyrirtæki eru beðin um umsögn um breytingar á stjórnarskrá Íslands !? Hvað er í gangi? Alcan Rio Tinto, Century Aluminum (Norðurál) og Alcoa fá erindi sent frá Alþingi Íslendinga... það síðastnefnda er elt með erindi á tvo staði... Hvaða fluga hefur bitið sérnefndina um stjórnarskrármál? Gamlir kunningjar formannsins?
Sjálfstæðismönnum finnst það greinilega ekki nóg og vilja fleiri HAGSMUNAAÐILA. Merkilegt hvað þeir elska þetta orð. Græðgisvæðing? Helguvíkurslagsíða?
Er þetta stjórnarskrá í boði hagsmunaaðila? ... ekki verður séð að (almenningur, fólkið eða þjóðin) eigi lögvarinna hagsmuna að gæta... eða hvað ?
Kannski er vert að vekja athygli á umsögn Félags umhverfisfræðinga:
Félagið tekur almennt ekki afstöðu til þess hvort æskilegt sé að ríkið fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda. Fjölmörg dæmi eru um það í sögu mannkyns að ríki hafi misnotað náttúruauðlindir, í umboði sinnar þjóðar, innan eða utan síns lögsagnarumdæmis. Einnig eru fjölmörg dæmi um að löggjöf, sem á að kveða nánar á um hlutverk ríkisins í þessu sambandi, hafi ekki þjónað því hlutverki að vernda náttúruauðlindir gegn ofnýtingu. Á þetta skal bent í upphafi til að árétta að það tryggi ekki endilega bestu nýtingu náttúruauðlinda að fela umsjá þeirra ríkinu í hendur.
Ekkert er einfalt en orð eru til alls fyrst. Sjá frumvarpið með breytingum.
22 ára þingferli Valgerðar lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 6.4.2009 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2009 | 19:10
Það hefur aldrei verið friður um frumvörp til stjórnskipunarlaga...
... en það hefur yfirleitt verið víðtæk sátt um að svæfa þau í nefnd, s.s. 1994, 1997/8 og 2007, sem heitir á dulmáli að vísa til 2. umræðu með samþykki allra nema fjarstaddra...
Enn langt í land eftir 36 tíma umræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |