Vorkosningar

Hvernig skal vinna kosningar? Með því að hlusta? Á þjóðina til dæmis? Tvennt hefur skipt miklu að ógleymdri stefnunni, sem hefur hvort sem er verið nokkuð svipuð hjá öllum flokkum og þýðir að þeir geta allir meira og minna lagst í eina sæng... : fjármagn flokks (m.a. til auglýsinga) og fjölmiðlaumfjöllun.

Til þess að stjórnmálaflokkarnir verði trúverðugir þarf gagnsætt bókhald um fjárstuðning: svipað og Obama fór með stofnun Clintons (skilyrði Obama fyrir tilnefningu Hillary að allir styrktaraðilar stofnunarinnar væru gefnir upp) ætti að gera þá sjálfsögðu kröfu að stjórnmálaflokkar gefi upp lista yfir öll þau fyrirtæki og fjársterka einstaklinga sem styðja þá fjárhagslega. Íslensk pólitík hefur þörf fyrir slíkt gagnsæi.

Flokkarnir fá framlög frá Alþingi, frá þingflokki, félagsgjöld og önnur framlög. 2007 voru tekjur Samfylkingar um 130 milljónir, Frjálslynda flokksins um 63 milljónir, Vinstri grænna um 80 milljónir. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gefa ekkert upp... ! Hvað eru þeir að fela? Það ætti að vera sjálfsögð krafa að ársreikningur 2008 allra flokka verði opnaður fyrir kosingar og listi gefinn yfir alla styrktaraðila. Það sama á við um 2009 o.s.frv. Það væri til lítils að kjósa fulltrúa á þing ef stjórnmálaflokkarnir ganga erinda einhverra fyrirtækja eða fjársterkra einstaklinga.

Ekki er um auðugan garð að gresja varðandi fjölmiðla, þeir eru fáir og berjast í bökkunum. Fjölbreytnin er lítil og alltaf spurning hvort eignarhald hafi áhrif á umfjöllun. Hagsmunagæsla flokkanna innan fjölmiðlanna er sterk og flokksguttar út um þá alla.

Það er í það fyrsta reginhneyksli að fyrrverandi ráðherra og samráðherra þeirra í stjórn skuli ritstýra fjölmiðli. Það verður að leiðrétta fyrir kosningar.

Aðstoðarmenn núverandi ráðherra og talsmenn álfyrirtækja og annarra stórfyrirtækja eru gjarnan úr fjölmiðlaheiminum. Eru þeir trúverðugir á fjölmiðlavellinum í framhaldi af því?

Það væri blessun ef fjölmiðlamenn, blaðamenn, fréttamenn og aðrir fréttaskýrendur sinntu einfaldlega starfi sínu og væru ekki að nudda sér upp við stjórnvöld, flokkana og önnur stórfyrirtæki. Við þurfum óháða fjölmiðla. Skyldur þeirra eru gagnvart okkur. Í lýðræði þarf öflugt aðhald fjölmiðla og ófeimna upplýsingaveitu. Við þurfum að vita hvað kraumar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband