Flokksdýr

Það er ekkert ógeðfelldara en flokksfundir þar sem allir hrópa húrra í kór eða klappa bara af því að það er það sem flokksdýr gera í sameiningu. Valda- og vinsældahlutföllin virka í botn, ekki innihaldið. Þetta kom t.d. skýrt fram hjá sjálfstæðismönnum sem klöppuðu fyrir sínum gamla jafnvel þótt þeir hafi ekkert endilega verið sammála... Heittrúnaðurinn er heilbrigðri skynsemi yfirsterkari.

Við maraþonið á Alþingi kemur fram að aðalatriðið er ekki að fara fram með rökum heldur að fikra sig eftir flokkslínu með öllum ráðum, þar gengur að hliðra til sannleikanum, fara allt í kringum hann eða forðast hann beinlínis. Hugsun þingmannsins eða sannfæring er ekki aðalatriðið en flokkslínan er það. Það er afar flókið að sannfæra einhvern fyrir tómu húsi og nægir rándýrt framsögunámskeið ekki til. Innihaldslaus er framsagan sárgrætileg.

Þessi flokksandi er í sjálfum sér stórhættulegur því aðalatriðið týnist og sannleikurinn skiptir ekki lengur máli. Allt leyfist en málið er að leyna því sem ekki þolir dagsljós. Fjölmiðlarnir létu lengi að stjórn og voru ekkert að krafsa óþægilega en nú virðist ýmislegt hafa breyst og það þrátt fyrir trygga flokksmenn á réttum stöðum. Fjölmiðlarnir eiga sér aðhalds- og upplýsingahlutverk sem rímir illa við flokkshagsmuni.

Flokkarnir virðast ráða skoðunum sinna flokksmanna, þeir eru sammála án þess að vita almennilega hvers vegna.

Það er eitthvað við Helguvíkurdæmið og mengunarkúgunina (kallað: "Hagsmunir Íslendinga í loftslagsmálum") sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi. Við vitum að allt er þar á haus, vanhugsað og í öfugri tímaröð. Hamast áfram með frekju að venju og áróðurinn þungur. Meðölin nokkurn veginn þau sömu og vanalega. Björgvin og Árni í ráðherraleik fengu að leika sér með skóflu og hvaðeina... En það er eitthvað sem ekki er sagt... eitthvað sem enginn vill almennilega segja... Hafa enn verið gerðir samningar fyrir luktum dyrum?

Einkavæðingin hefur eflaust leikið bæi og ból á Reykjanesi illa en samt... Er ekki kominn tími til að hugsa sinn gang, viðurkenna mistök og draga í land? Eigum við ekki betra skilið en að vera fórnað á altari stóriðjunnar?

Ríkisstjórn skipaði stóriðjunefnd undir forystu Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra árið 1961. Það var hún sem gerði samning við alþjóðlega fyrirtækið Alusuisse. Fyrirtækið reisti álver við Straumsvík og opinbert íslenskt fyrirtæki, Landsvirkjun, sá því fyrir orku. Fyrsta stórvirkjun landsins, Búrfellsvirkjun, var gangsett árið 1969.

Einum 25 árum síðar var farið að huga að umhverfisáhrifum framkvæmda en lögunum frá 1994 fylgdi hið fræga bráðabirgðaákvæði, sem hleypti stórvirkjunum í gegn án teljandi vandræða. Allar síðari breytingar miða að því að gera lögin hin þægilegustu.

Þó má merkja vaxandi áhyggjur af ýmsum toga út í hinu óstillta þjóðfélagi. Ómengað vatn og hreint loft er sjálfsagður hlutur. Hlýja í húsum og fallegt sundlaugarvatn sömuleiðis. Hitaveitan er velheppnuð og hugsuð til handa okkur öllum. Heitt vatn í hvers manns krana. Náttúrufegurð út í hið óendanlega. Allt þetta er okkar meðan birgðir endast...

Áhyggjurnar eru ekki ástæðulausar. Það gustar um fertugan stóriðjukaflann í raforkusögu Íslands. Það stendur ekki steinn yfir steini. Össur og Siv eru jafn hættuleg og þingmennirnir sem flykkjast í stóriðjugarðinn. Það er djúpt á umhverfistauginni. Allt er klækir og undanbrögð. Það er ekki lengur viturt fólk á þingi.

Er ekki kominn tími til að söðla um og hörfa frá stórlánaframkvæmdum á margfaldri ábyrgð Íslendinga...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Jú,  það er rétt að staldra við og huga að fleiri kostum en stóriðju sem gleypir alla okkar orku og skerðir stórlega það svigrúm sem við þurfum að hafa.

Arinbjörn Kúld, 13.4.2009 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband