28.2.2009 | 19:09
Má bjóða þér umhverfisáhrif?
Áhrif álvers, háspennulína og virkjana í nágrenni Húsavíkur.
Drög að tillögum um hvað verði kannað (sjá pdf-skjal).
Hvað veldur helst áhyggjum? Hefur eitthvað gleymst?
Frestur til að senda athugasemdir eða ábendingar til 6. mars 2009.
Ferskvatn? Jú, vatnsöflun fyrir vatnsveitu jarðgufuvirkjana, frárennsli frá borholum við borun og prófanir geta haft áhrif á vatn.
Grunnvatn? Jú, áhrif geta orðið á rekstrartíma jarðgufuvirkjana tengt losun affallsvatns.
Útivist og ferðaþjónusta? Áhrif athuguð... Sérstök skýrsla vegna álvers um útivist og ferðaþjónustu, þar með talin hvalaskoðun.
Jú, á Húsavík er hvalasafn og hvalaskoðun. Fyrst geta hvalveiðar, á langreyði (fyrirtæki eins manns) og hrefnu (hinir), sett strik í reikninginn en síðan er það mengun frá álveri í sjó...
Hvalir? Áhrif á hvali verða metin með tilliti til ýmissa þátta tengdum álveri, s.s. dreifing efna frá álveri í sjó.
Sjór? Vokvetniskolefni (PAH) er í frárennsli frá álveri í sjó. Truflanir á skipaumferð vegna hafíss og hættu á bráðamengun sjávar vegna aukinnar skipaumferðar.
Loftgæði? Jú, jarðgufuvirkjanir losa brennisteinsvetni (H2S) - og snefil af hinu og þessu - út í andrúmsloftið. Hvað er í útblæstri frá álveri? Jú, brennisteinstvíoxíð (SO2), loftkenndur flúor (HF), svifryk (PM10), vokvetniskolefni (B(a)P), koltvíoxíð (CO2).
"Vinnsla jarðhita hefur áhrif á losun jarðhitalofttegunda út í andrúmsloft á jarðhitasvæðum. Jarðhitalofttegundir berast einnig tímabundið út í loftið við prófanir vinnsluhola. Losunin getur haft áhrif á loftgæði og vinnslan getur hugsanlega haft áhrif á náttúrulegt útstreymi á jarðhitasvæðinu. Umfang losunar og hlutfall gastegunda í gufunni er breytilegt og fer eftir staðsetningu, dýpi og vermi borhola. Tími vinnslu og prófana hefur að sjálfsögðu einnig áhrif þar á."
"Vegna áforma um aukna orkuvinnslu við Kröflu og Þeistareyki verður reiknuð dreifing brennisteinsvetnis (H2S) sem áætlað er að verði losað frá núverandi Kröflustöð, Kröfluvirkjun II, Þeistareykjavirkjun og fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun. Niðurstöður reikninga verða sýndar með myndrænum hætti. Metin verður styrkaukning í byggð, fjöldi daga sem lykt getur fundist og hæstu mögulegu toppar. Metið verður hvort sammögnunaráhrifa gæti. Greint verður frá útstreymi lofttegunda frá álveri á Bakka. Metið verður hvort sameiginlegra áhrifa gæti með öðrum framkvæmdum sem heyra undir þetta mat."
Losunarkvóti, hva, útstreymi frá álverum er jú háð honum en losun frá jarðgufuvirkjunum ekki... enda síðastnefnda mengunin lítið auglýst út um hinn víða heim.
Þynningarsvæði (það svæði sem mesta mengunin nær til). Skyldi Húsavík vera innan þess eða verður línan rétt við ysta hús... Það eru jú kannski einhverjir bændur í Skútustaðahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi sem þurfa að hætta búskap? Hva, "tilgangur með verkefnunum fjórum er að nýta þá orku sem er í jörðu á þessu svæði til að byggja upp öfluga undirstöðuatvinnugrein á Norðausturlandi og styrkja þannig stoðir byggðar í landshlutanum"...
Áhrifin geta verið á fornleifar, verndarsvæði, hljóðvist (hávaði frá háspennulínum, borholum í blæstri, álveri í rekstri), gróður, dýralíf, samfélag...
"Vinnsla jarðhita hefur áhrif á jarðhitageyminn. Jafnframt getur losun affallsvatns frá virkjuninni með niðurrennsli í djúpar borholur (djúpförgun) haft áhrif á geyminn ef sú förgunarleið verður valin."
Háspennumöstur? Áætluð gildi raf‐ og segulsviðs, sjónræn áhrif, hindranir fyrir fugla (áflug), áhrif á farleiðir fugla.
Sjónræn áhrif allra mannvirkja verða einnig metin í drögum að tillögu að matsáætlun í sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík.
Hægt er að senda athugasemdir og ábendingar fyrir 6. mars 2009.
Fjöldi manns hjá eftirfarandi stofnunum hefur atvinnu af sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum: dr. J. Scire, Ferðamálasetur Íslands, Fornleifastofnun Íslands, Háskólinn á Akureyri, HRV, Íslenskar orkurannsóknir, Jarðfræðistofan Stapi, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, KMS Technologies, Mannvit hf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrustofa Norðausturlands, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA), Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftaverkfræði, Vatnaskil, Veðurstofa Íslands, Veiðimálastofnun.
"... að fullnægjandi umhverfisvernd sé undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda tengd þeirri hugmynd að hver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og honum beri skylda til að vernda umhverfið..." Úr Árósasamningnum.
Flokkur: Umhverfismál | Breytt 10.3.2009 kl. 22:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.