Sérsveitin til vandræða

Rauðbrúsagengið kann sér ekki hóf og spreðar augnameiðandi piparúða á mótmælendur af litlu tilefni. Það sést á myndum að bakgarður þingsins var galopinn, enginn hjá hvíta hliðinu eða neitt og því undarlegt að vera að handtaka fólk fyrir að vera þar.

Óeirðabúningur, piparúði, kylfur og handtökur eru einungis til þess að espa fólk að óþörfu. Mótmæli eru réttmæt og skyldi maður halda að sérsveitarmenn tækju tillit til þess. Íslendingar hafa ímigust á ofbeldi og er undarlegt að það skuli einmitt vera rauðbrúsagengið sem beitir því.

Í fréttum er ekki gerður munur á lögreglu og sérsveitinni. Er þar enginn munur á? Mér sýnist t.d. að aðeins sérsveitin sé vopnuð rauðbrúsum piparúðans... en það er einmitt úðun hans sem hefur sætt harðri gagnrýni. Sérsveitin er hlýðnissveit og því beinlínis hættuleg þegar henni er illa stjórnað. Kannski eilítið varasamt að rugla þessu tvennu saman og þó... því hér á þessari mynd eru tveir lögreglumenn og einn sérsveitarmaður að handtaka ungan mann af ótrúlegu ofurefli.

En var táragasi beitt eins og fréttir herma?

Auðvitað er kominn tími til að reyna við vantrauststillögu aftur fyrst enginn sætir ábyrgð og segir af sér...

Sjálfstæðisflokkurinn (25) og Samfylkingin (18) hafa mikinn meirihluta á þingi eða 43 þingmenn af 63 (og stjórnarandstaðan 20: Vinstri grænir 9, Framsókn 7, Frjálslyndir 4). Meirihluta svo stóran (2/3) að "afbrigðum" hefur verið beitt endurtekið á þinginu (eins og fyrir jól), þ.e. að stjórnarandstöðu er ekki gefinn tilhlýðilegur frestur til að kynna sér málin. Ofnotkun þingmeirihlutans á "afbrigðum" er atlaga að eðlilegum starfsháttum þingsins.

En þingmeirihluti er ekki eign ráðherranna. Ef ráðamenn sjá ekki að sér þurfa þingmenn hvar í flokki sem þeir eru að taka af skarið og senda þá heim svo friður skapist í þjóðfélaginu. Íslendingar eiga náðarsamlegast að fá að taka þátt með því að kjósa og sameinast á erfiðum tímum. Nýr kafli gæti þá hafist. Mótmælin hætta ekkert þótt Sturla hneykslist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Hanna,

Ég er enginn íslenskusnillingur en mér finnst mjög ánægjulegt að sjá hvað þú hefur gott vald á málinu en það er, því miður, sjaldséð hér á "moggablogginu". Frásagnir þínar eru í rauninni svo vel orðaðar að stundum veit ég ekki hvort ég á að vera þér sammála eða ósammála við lok lestrar.

Ég er sammála því að þessi ríkisstjórn þarf að fara en mér finnst hræðilegt þegar mótmælin fara á þann hátt sem þau hafa farið. Vissulega fagna ég því þó þegar mótmælt er friðsamlega eins og mótmælin hafa verið nú í kvöld.

Það er eitt sjónarmið sem ég vil koma til skila varðandi færslu þína hér að ofan þar sem þú talar um ofurefli við handtöku. Ég er sannfærður um að sá sem þarna var handtekinn hafi haft sig meira í frammi en aðrir við ófriðsamleg mótmæli og jafnvel veitst að lögreglumönnum og það hafi leitt til handtöku hans. Af hverju er ég sannfærður um það? Vegna þess að ég var sjálfur í lögreglunni uns fjölskylduaðstæður urðu til þess að ég hafði ekki efni á því lengur að starfa við launalítið hugsjónastarf. Þess vegna veit ég að þessir góðu laganna verðir grípa ekki til handtöku nema nauðsyn sé til. Sérstaklega varðandi "ofureflið" vil ég svo segja þetta: 1) "Handtaka" er valdbeitingarathöfn framkvæmd að yfirlögðu ráði vegna brýnnar nauðsynjar. Það vita og viðurkenna allir sem hafa þurft að beita téðri valdbeitingarathöfn að hún er aldrei falleg, lítur alltaf illa út og er hinum handtekna sjaldnast til ánægju. Enda er henni ekki beitt nema nauðsyn krefji. 2) Fólki blöskrar oft að sjá "ofureflið", þrír eða fleiri lögreglumenn að handtaka einn einstakling. Staðreyndin er samt sú að því fleiri lögreglumenn sem koma að henni því minni líkur eru á því að hinn handtekni eða lögreglumenn slasist við þessa ófríðu en nauðsynlegu valdbeitingu.

Mbk,
Valdi - háskólanemi.

Valdi (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 01:45

2 identicon

Ég þakka þér enn kærlega.

Græna loppan (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband