10.12.2008 | 23:23
Aðalóvinurinn umhverfismat?
1. ágúst 2008 :
"Umhverfisráðherra hefur úrskurðað að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum beri að meta sameiginlega umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur."
Áróður gegn umhverfisráðherra hefur verið þungur síðan í ágúst og þrýstihóparnir margir og sterkir.
Stóriðjuþrýstingur gjörnýtingarsinna
6. október 2008 :
Óli Björn Kárason, titlaður blaðamaður, er með úrræði (sem er alla jafna ekki hlutverk blaðamanna) í Kastljósi 6. október 2008: "Ég held til dæmis að það eigi að afnema lög um umhverfismat þannig að það sé hægt að taka ákvörðun um að ráðast í stórvirkjanir og álver..."
Spyrjandinn (Sigmar) : "Já, það er sem sagt alveg innstæða fyrir því að það eru miklar náttúruauðlindir hérna í landinu og það verður vafalítið minni mótstaða fyrir því að virkja þær með einum eða öðrum hætti." Útdrættir úr Kastljósi 6. október 2008.
11. október 2008 :
"Alþingi getur sett sérlög um ákveðnar framkvæmdir, líkt og gert var um Kárahnjúkavirkjun," er haft eftir Halldóri Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar (síðan 1. janúar 2007), á vísir.is 11. okt. 2008.
11. október 2008 :
"Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að norska fyrirtækið [REC Group sem vill byggja sólarkísilverksmiðju í Þorlákshöfn] hafi fengið þau svör frá umhverfisyfirvöldum að það tæki sex til átján mánuði að vinna umhverfismat vegna verksmiðjunnar. Þetta voru ekki fagleg vinnubrögð. Við förum eindregið fram á að þetta endurtaki sig ekki."" er haft eftir honum í frétt á vísi.is 11. okt. 2008. Hvað? Hvað eru ekki fagleg vinnubrögð? Að hvað endurtaki sig ekki?
"Hann [Vilhjálmur Egilsson] segir að ekkert verði eins og það var áður eftir atburði dagsins," er fyrirsögn fréttar á Stöð 2 : "Tími sparðatínings í íslenskri stjórnsýslu er liðinn og fara verður í allar framkvæmdir sem í boði eru, þar á meðal álvera í Helguvík og á Húsavík," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmastjóri SA, þar. Hann talar eins og framkvæmdirnar séu ókeypis.
Þetta er nákvæmlega samkvæmt uppskrift The Shock Doctrine, sem Naomi Klein hefur skrifað um : Myndband.
13. október 2008 :
Það er sótt að umhverfisráðherra úr öllum áttum. Hún "flækist fyrir" þessum herramönnum.
17. október 2008 :
Hví öll þessi læti, jú, Tillaga að matsáætlun fyrirhugaðs álvers á Bakka, sem HRV Engineering útbjuggu fyrir Alcoa, var á leiðinni í Skipulagsstofnun.
Verkfræðistofur
HRV Engineering, þ.e. Hönnun, Rafhönnun og VST sem auglýsa saman á vef sem aldrei hefur verið á íslensku: "We have played a leading role in all three of Iceland's Aluminum Smelter plants, numerous geothermal power plants, hydroelectric power plants, high-voltage power transmission lines, road infrastructure, public utilities and waterworks, harbor construction, airport development and much more."
Verkfræðistofurnar ganga grimmt í eina sæng: "Mannvit byggir á grunni þriggja verkfræðistofa sem stofnaðar voru á sjöunda áratug síðustu aldar: Hönnunar hf. (1963), Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. (1963) og Rafhönnunar hf. (1969). Tvö fyrstnefndu fyrirtækin sameinuðust í fyrirtækið VGK-Hönnun 2007 og nú hefur Rafhönnun bæst í hópinn."
"Vatnsaflsvirkjanir hafa alltaf verið stór þáttur í starfsemi VST," segir á vef stofunnar og ennfremur að hún sé "elsta og jafnframt ein stærsta verkfræðistofa landsins og hefur ávallt verið í fararbroddi verkfræðistofa við mannvirkjagerð á Íslandi."
Það er engin tilviljun að verkfræðistofurnar spretta upp á sjöunda áratugnum:
"Árið 1965 hófst þriðji kaflinn í raforkusögu Íslands, tími stórvirkjana og orkuvinnslu til stóriðju, og stendur hann enn yfir. Orkuvinnsla jókst nú hraðar en dæmi höfðu verið um áður. Í upphafi tímabilsins var stofnað opinbert fyrirtæki, Landsvirkjun, til að reisa og reka þessar virkjanir." Útdráttur úr bókinni Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eftir Helga M. Sigurðsson og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (VST) gaf út árið 2002 á sjötugsafmæli sínu.
Hver skyldi tilgangurinn vera með mati á umhverfisáhrifum?
31. október 2008 : Áhangendur álbræðslulausnarinnar virðast vera annaðhvort ólæsir eða óhugsandi. Þeir líta á mat á umhverfisáhrifum sem óþarfa TÖF og kostnaðarsama (framkvæmdaraðili þarf að borga brúsann). Sjá frétt á Vísi um frestunina.
Hvað er svona erfitt að skilja? Umhverfismat er okkar hagur, þ.e. ef okkur er annt um umhverfið; hreint loft, land, vatn og fegurð. Það hefur öllu verið klúðrað í fjármálum landsins og varla við það bætandi að klúðra öllu í umhverfismálum líka. Loforðin voru mörg og svæðin sem friðlýsa á (náttúruverndaráætlun) eru hluti af efndunum sem umhverfisráðherra kynnti um daginn.
"Lögum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Matinu er einnig ætlað draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. Ennfremur að kynna umhverfisáhrif framkvæmda fyrir almenningi og stuðla að því að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir." Sjá vef Skipulagsstofnunar.
Við erum ekki ein í heiminum og auðhringir tengja okkur við umheiminn á dapurlegan hátt. Álið sprettur ekki upp af sakleysi. Báxítvinnslan nærist á arðráni og spillingu.
Flokkur: Umhverfismál | Breytt 11.12.2008 kl. 22:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.