Chicago 1886 og Fourmies 1891

Árið 1884 þingaði bandarískt verkalýðsfélag (American Federation of Labor) í Chicago og gaf það sér tvö ár til að ná fram átta stunda vinnudögum. Til baráttunnar varð 1. maí  1886 fyrir valinu enda 1. maí nokkuð táknrænn dagur, almennt upphaf bókhaldsárs og endurnýjun launasamninga. Þónokkrir náðu takmarkinu en langt frá því allir. Um 340 þúsund verkamenn fóru því í verkfall. Í kröfugöngu 3. maí féllu þrír og daginn eftir undir lok kröfugöngu þegar flestir voru farnir og aðeins um 200 eftir og annað eins af löggum sprakk sprengja og um 15 féllu í lögregluliði. Þrír verkalýðsleiðtogar voru dæmdir í lífstíðarfangelsi og fimm aðrir hengdir 11. nóvember 1886 þrátt fyrir takmarkaðar sannanir. Þremenningarnir voru náðaðir nokkrum árum seinna.

Þremur árum síðar, í júní 1889, þingar alþjóðasamband sósíalista í París á 100 ára afmæli frönsku byltingarinnar. Ákveðið var að velja sameiginlegan dag til baráttunnar fyrir átta stunda vinnudegi um heim allan en algengt var að unnið væri 10 til 12 tíma á dag. Fyrir valinu varð 1. maí.

Það dregur til tíðinda 1. maí 1891 í bænum Fourmies í Norður-Frakklandi þegar skotið er með splunkunýjum byssum á ósköp friðsama 1. maí göngu. Tíu falla, þar af átta yngri en 21 árs. Ein þeirra sem féll var hvítklædd verkakona með fangið fullt af blómum. Harmleikurinn festir baráttudaginn í sessi í Evrópu. Í friðarsamningunum í Versölum árið 1919 var átta stunda vinnudagur festur í lög eða 48 stunda vinnuvika (laugardagurinn er talinn með).

Síðan þá er dagurinn almennur baráttudagur.

Árið 1920 gerir Lenín 1. maí að frídegi og fylgja önnur lönd smám saman eftir. Árið 1933 gerir... Hitler 1. maí að launuðum frídegi. 1. maí verður frídagur og fête du travail í Frakklandi árið 1941 og var það gert til að fá verkamenn til að styðja Vichy-stjórnina. Dagurinn verður þó ekki launaður frídagur í Frakklandi fyrr en 1947.

Árið 1890 var rauður þríhyrningur barmmerki í 1. maí göngum í Frakklandi sem tákn fyrir atvinnu, svefn og frístundir. En fyrst 1907 var vorblóm höfuðborgarsvæðisins táknblóm í 1. maí kröfugöngu í París, le muguet (sem er víst dalalilja á íslensku). Blómið er selt á götum úti um allt Frakkland 1. maí.

Það er sterk mótmælahefð í Frakklandi og mæta oft tvær til þrjár kynslóðir saman í kröfugöngur. Á þeim dögum skapast mikil og sterk samstaða. Vinnufélagar og kunningjar hittast og bera saman bækur sínar. Það er sjálfsagt mál að mótmæla í Frakklandi og getur engin ríkisstjórn lokað fyrir þeim eyrunum þótt það hafi sannarlega verið reynt. Viðbrögðin láta þá ekki á sér standa.

Heimild m.a. :
Herodote


mbl.is Kröfugangan lögð af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Nú er það?

Á keltnesku þýðir beltane (með stafbrigðum) greinilega 1. maí og þetta hljómar nokkuð undursamlega hjá Britannicu... en hvar ástin kemur inn...

Í kaþólsku var 1. maí auðvitað Tveggjapostulamessa (helgaður postulunum Filippusi og Jakobi yngra og síðar heilagri Valborgu) en var auðvitað upphaflega heiðinn eins og flest það sem kirkjan glófesti. Ekkert af þessu var frígefandi fram í aldir þótt Keltar hafi kannski verið lítt vinnusamir á mörkum mannheima...

Samkvæmt Árna Bö í Sögu daganna (bls. 48) var fyrst gengin 1. maí ganga á Íslandi árið 1923.

GRÆNA LOPPAN, 1.5.2009 kl. 22:22

2 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Árna Björnssyni en ekki Árna Bö. hm.

GRÆNA LOPPAN, 1.5.2009 kl. 22:25

3 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

... og til hamingju með daginn næstum nafna :)

GRÆNA LOPPAN, 1.5.2009 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband