Fimmtudagsverkfall í Frakklandi

Frakkar eru frægir fyrir kurteisisvenjur sínar enda þær lífsnauðsyn í svo stóru samfélagi en almennt virðist sem Frökkum sé nokk sama um náungann.

Það er ekki fyrr en gengið er með þeim á verkfallsdögum sem umhyggja þeirra birtist allt í einu og það svo sterkt. Sameinaðir berjast þeir fyrir réttindum borgaranna og eru ekki feimnir við það. Hvílík stemning! Þá sameinast Frakkar af öllum stéttum og verða eitt á svipaðan hátt og Íslendingar þegar hörmungar dynja yfir. 

Framundan er eins dags allsherjarverkfall í Frakklandi og mun einkageirinn og hið opinbera þá ganga til varnar réttindum sínum. Jú, forsetinn hefur reynt með öllum ráðum að sverta verkföll. Sussum svipaðar aðferðir og notaðar hafa verið löngum heima á Íslandi gagnvart þeim sem hafa leyft sér í gegnum tíðina að mótmæla, nú síðast birtist ágætt dæmi um slíkar aðferðir hjá fráfarandi forsætisráðherra sem reyndi að dusta burt með ósannindum þessi óþægindi sem mótmæli eru jú... Auðvitað vildi Sarko kallinn kveða mótmælin niður svo að fólkið þegði honum í hag en sem betur fer er HEFÐIN svo sterk fyrir þátttöku borgaranna í eigin lífi að forseti Frakklands fær ekki við neitt ráðið.

Fyrir kröfugöngur í Frakklandi eru ávallt haldnir fundir sem líkjast því sem heima hefur fengið nafnið borgarafundir, m.a. í háskólum. Frakkar er mjög æfðir í opinberum umræðum og er fundarstjórn lykilatriði svo að sem flestir fái orðið. Ótrúlega fróðlegir og skemmtilegir fundir.

ps

Vel skrifuð frétt á vef ríkisútvarpsins í morgun. Við það má bæta að hér í Frakklandi er ríkisútvarpið einnig í verkfalli. Allir dagskrárliðir falla niður, þar með taldar fréttir. Aðeins endalaus tónlist og tilkynning á klukkutímafresti þar sem hlustendur eru beðnir velvirðingar og útskýrt í stuttri setningu hvers vegna (atvinna, kaupmáttur, velferðarkerfið), allt að frönskum sið.

ps2

Skemmtilega unnin frétt á Reuters.

Gangan í minni borg var svo pökkuð af fólki að það tók hana tvo tíma að komast á skrið öll eins og hún lagði sig og þegar við, sem vorum aftast, komumst loks af stað birtist gangan sem var þá komin allan hringinn! Gangan var þétt og náði síðan allan hringinn! Ég fyrir mitt leyti hef aldrei séð þvílíkan mannfjölda í kröfugöngu hér í borg og þó vantaði einna helst eldri borgara og þá yngstu vegna kuldans.

ps3

Þetta er smámynd af mótmælum í einni borginni sem gefur eilitla hugmynd. Talið er að um ein milljón til 2,5 milljónir hafi gengið í 195 kröfugöngum um bókstaflega allt Frakkland (munurinn á fjöldatölu er milli löggu og skipuleggjenda og þarf í framhaldinu að spá í tölu einhvers staðar þar á milli).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband