Heilbrigð skynsemi : seinkun ?

Mikið er ég þreytt á asanum sem kemur beint úr vasa framkvæmdaraðilans... Það er bókstaflega ekkert sem réttlætir hann: heilsa okkar, budda og umhverfi skiptir máli, takk fyrir. Styrking suðvesturlínanna verður á okkar kostnað, virkjunarframkvæmdir sömuleiðis, sem og alls kyns ívilnanir vegna enn eins álvers. Er Ísland að verða eitt allsherjarálland á mála hjá öllum nema sjálfu sér?

"...sameiginlegt umhverfismat, sem gæti seinkað framkvæmdum um langa hríð."  Jahá, en hver er tilgangur með mati á umhverfisáhrifum ?

"[1] Lögum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim.

[ 2 ] Matinu er einnig ætlað [að] draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. 

[ 3 ] Ennfremur að kynna umhverfisáhrif framkvæmda fyrir almenningi og stuðla að því að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir." Af vef Skipulagsstofnunar.

Raflínur munu valda talsverðu raski


Verulega neikvæð áhrif vegna lagningar Suðvesturlína

Raflínur trufla fuglalíf

 

Athugasemdir Landverndar frá 1. des. 2008

Bergur Sigurðsson Laumuleikur Landsnets. Athyglisverð aðsend grein í Mogganum í gær (22/9), sem fjallar um það sem Landsnet kýs að fjalla ekki um í matsskýrslu: "Matsskýrslan fjallar ekki um þá þætti sem myndu valda mestu umhverfisraski en umhverfisráðherra getur gert Landsneti að segja satt og rétt frá."


mbl.is Gengur hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búktal stóriðjunnar

Það vekur athygli hve orkugeirinn og stóriðjan tala auðveldlega í gegnum Starfsgreinasambandið, Samtök iðnaðarins, Alþýðusambandið og forseta sveitarstjórnar Norðurþings. Búktalið er sérstaklega áberandi þessa dagana...

Það sama gerðist 2001 (Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði): Starfsgreinasambandið og ASÍ.

Sumir hafa leyft sér ýmislegt: Milljónagreiðslur Landsvirkjunar.

Hvað gerðu þessir dólgar FYRIR stóriðjuæðið (með tilheyrandi gjörnýtingarstefnu í virkjunarmálum og þungavigtarlánum)? Þreytandi þetta hugmyndaleysi. 

Skyldi galdurinn liggja í teyminu? "Hluti samfélags- og upplýsingateymis Alcoa Fjarðaáls mun eftir breytingarnar starfa fyrir Alcoa á Íslandi." 10. okt. 2008. Tengingin inn á Alþingi? Sérnefnd um stjórnarskrármál undir forystu Álgerðar gerði sér lítið fyrir og bað álfyrirtækin um umsögn um breytingar á Stjórnarskrá Íslands (!) í vor... (Century Aluminum var eitt um að svara). Þegar til kom vildi enginn í nefndinni gangast við þessum beiðnum...

Er ekki kominn tími til að kanna ítök álfyrirtækjanna á Íslandi?

Ráðherrar hafna gagnrýni ASÍ


Hverjar eru hætturnar?

Það sem fyrst kemur upp í hugann: er gull framtíðarinnar, vatnsbólin, í hættu? Myndar binding koltvíoxíðs aðra hættu og þá hverja? Hver styrkir rannsóknirnar? Hverjir eru þessir þekktu erlendu sérfræðingar? Hverjir eru erlendu háskólarnir tveir? Hvert er mat blaðamannsins? Hefur hann kynnt sér málið frá annarri hlið en þeirri sem hér er sagt frá, þ.e. frá forseta samtaka evrópskra jarðefnafræðinga og þess jarðefnafræðings sem stýrir verkefninu? Það er ómögulegt að mynda sér skoðun á málinu með svo takmörkuðum upplýsingum...

Á visir.is er vitnað í fréttatilkynningu frá OR og talað um alþjóðlega vísindaráðstefnu um bindingu koltvísýrings í jarðlögum hér á landi þessa dagana og þar er talað um fjölþjóðlegt CarbFix verkefni...

Hefur endurheimt votlendis loks verið talin til mótvægisaðgerða af SÞ? Þórunn Sveinbjarnardóttir, þá umhverfisráðherra, vakti einmitt "athygli á tillögu Íslands um að endurheimt votlendis verði viðurkennd formlega sem leið til að binda kolefni úr andrúmslofti" á 14. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í desember 2008. 

Skýrsla umhverfisráðuneytis 2009: Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (pdf-skjal).

Það sem skýrslan sú fjallar ekki um: "Auk þjóðhagfræðilegra áhrifa er ekki metin hin ýmsu jákvæðu ytri áhrif sem hljótast vegna mótvægisaðgerða, svo sem bætt heilsa og minni loftmengun vegna aðgerða í samgöngum." (bls. 220).


mbl.is Íslendingar í forystu við bindingu koltvíoxíðs í berg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hugmyndaleysi viðvarandi í Norðurþingi ?

Hvað gerðu menn áður en álfyrirtækin fóru að slá um sig hér á landi? Stórkallalegar framkvæmdir sem veitast að heilsu manna. Að halda öðru fram væri blinda.

VIÐBÓT: Enn þrýstir sveitarstjórinn á samkvæmt frétt á visi.is.

Tvennt vekur athygli í máli hans, annað er ótrúlega algeng afstaða hjá talsmönnum stóriðjuframkvæmda, að umhverfismat TEFJI FYRIR ! 

Í þessu tilfelli tímamótaákvörðun umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat um áhrif allrar framkvæmdarinnar frá 31. júlí 2008: "Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. febrúar 2008 er felld úr gildi og skulu umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur metin sameiginlega samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 74/2005." 

En hver er tilgangur með mati á umhverfisáhrifum ?

"[1] Lögum um mat á umhverfisáhrifum er ætlað að tryggja að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, hafi verið metin áður en leyfi er veitt fyrir þeim. [2] Matinu er einnig ætlað [að] draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða. [3] Ennfremur að kynna umhverfisáhrif framkvæmda fyrir almenningi og stuðla að því að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir." Af vef Skipulagsstofnunar.

Við höfum öll hag af því að varlega sé stigið til jarðar og náttúra þessa lands virt að verðugleikum.

Hitt er síðan setningin: "Það er mjög mikilvægt sálfræðilegt atriði fyrir íbúa á sveitarfélaginu," segir Friðrik." Heilt sveitarfélag er spanað upp í eina átt og þetta er orðið sálfræðilegt atriði... 


mbl.is Krefst heiðarleika af hálfu stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegt og fjölbreytnin að aukast með góðu fólki

... en hvernig væri að breyta íslenskum bíóum í kvikmyndahátíð árið um kring? Ekki bara frumsýningar með boðsgestum og kvikmyndahátíðir stundum heldur alvörubíó árið um kring með góðu úrvali, ekki bara verðlaunamyndir. Sleppa sælgætis(græðgis)hléum en selja  eingöngu FYRIR sýningu. Eða þá að bjóða upp á hlébíó með kók og sælgæti og amerískri mynd annars vegar og skemmtilega hlélaus bíó með kvikmyndum annars staðar frá hins vegar. Auglýsa öðruvísi og lækka verðið. Breyta bíómenningunni almennilega. Alvörubíó. Róttæka breytingu takk.


mbl.is Vesturport í bíó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsvirkjun skekkir myndina vísvitandi

... með því að kaupa skipulagið. Spurning hvort þetta hafi verið tilfellið annars staðar.

Hvar er réttlætið þegar hagsmunaaðili - framkvæmdaraðilinn - veður uppi?

Þeir sem hyggjast nýta sér þann möguleika að gera athugasemdir (ókeypis NB) fá framan í sig setninguna að hver og einn sé bara einhver sem "ekki verður séð að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta". Honum komi þar af leiðandi náttúra Íslands hreint ekki við.

Í raun getur hvaða framkvæmdaraðili sem er áformað hvað sem er í rólegheitunum og almenningur má jú vita, samkvæmt lögum, en á hann er kerfisbundið skellt þegar hann leyfir sér að gera athugasemdir (almenningur er brotinn niður í einstaklinga sem "ekki verður séð að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta").


mbl.is Óskar eftir frekari upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúlkurnar eru adjunktar og lektorar á hugvísindasviði HÍ og drengirnir...

Hátt hlutfall kennara við háskólana eru stundakennarar. Fastráðnir stundakennarar við Háskóla Íslands urðu adjunktar um árið en kenna alltaf jafnmikið. Háskólastarf snýst um rannsóknir og kennslu. Besta leiðin til að halda adjunktum á mottunni er kennslan sem er mest hjá þeim en minnst hjá prófessorum.

Málið er að kennarar vinna ekki bara á virkum dögum. Vegna kennslunnar verða virkir dagar ekki nýttir til rannsókna né helgar og frí til hvíldar ef stunda skal rannsóknir og skrif. Jafnvel þótt rannsóknir adjunkta séu ekki metnar til launa næst framgangur í starfi aðeins með rannsóknum og fræðiskrifum ásamt jú kennslunni... Adjunktar verða síðan að bíða eftir auglýsingu um lektorsstöðu til að fá framgang í starfi. Það er svo aftur háskólapólitík sem ákvarðar hversu lengi adjunktar marínera. En þar sem allur tími adjunkta fer í undirbúning undir kennslu og kennslu sem gildir þó ekki til jafns við rannsóknir og skrif við framgang í starfi sem aftur er vitað að þeir hafa ekki tíma til að sinna vegna hárrar kennsluskyldu er útkoman nokkuð ljós. Mottan. Þar sem kennsla gildir minna eða minnst í framgangi adjunkta eiga þeir aftur lítinn sjens þegar loks er auglýst lektorsstaða í sérgrein þeirra...

Þrepin eru fjögur: adjunkt, lektor, dósent og prófessor. Prófessorarnir eru langfjölmennastir í tveimur deildum hugvísindasviðs: íslensku- og menningardeild og sagnfræði- og heimspekideild.

Hm, skoðum landslagið. Deildirnar eru fjórar á hugvísindasviði. Enginn deildarforseti er kvenkyns. Af 36 prófessorum eru 7 konur. Af 25 dósentum eru 8 konur. Af 24 lektorum eru 15 konur. Af 19 adjunktum eru 12 konur. Athyglisvert ekki satt?

VIÐBÓT :

Langflestir prófessorar eru karlar

(vantar reyndar dósenta í fréttina á rúv)


Peningabullur

Hvað er sanngjarnt við það að íslensk stjórnvöld hafi hvatt til hlutabréfakaupa með skattaafslætti hér heima á meðan fjármagnsskattur var lagður á sparnað á "blinda tímabilinu"? Sjálfselska erlendra kröfuhafa er mikil. Hér heima voru hinir almennu borgarar hvattir til að taka þátt með því að festa sparnað sinn í hlutabréfum í íslenskum bönkum og fyrirtækjum... Bankinn ráðgefandi og stjórnvöld leiðbeinandi. Erlendis voru þeir hvattir til að ávaxta fé sitt hjá íslensku bönkunum... Allt kerfið var hannað til að rúa fólk inn að skinni með ávöxtun sem gulrót. ... Hverju átti annars að treysta ? Ef ekki bankanum, ekki stjórnvöldum, ekki fjölmiðlum, ekki kerfinu o.s.frv. Þetta rennur allt einhvern veginn saman í einn graut og menn kjósa enn hikstalaust með bankakorti...

Ráðgjafar spyrja ekki um hag fólks


mbl.is 93% kröfuhafa bankanna íhuga málshöfðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekkert alþjóðlegt við bíóin, nú eða sjónvarpsdagskrána

Það er hálffyndið að vera að þenjast með Alþjóðlega kvikmyndahátíð þegar amerískar bíómyndir tröllríða bíóum borgarinnar og sjónvörpum og hafa gert í áratugi: allt meira og minna úr dreifingarkerfi Kanans. Valið í bíóum mætti vera alþjóðlegra árið um kring sem og í sjónvarpi, þannig yrði kvikmyndahátiðin eðlilega hápunkturinn.

Amerískt bíó. Bíóauglýsingar eru undarleg myndskreyting með upplýsingum í algjöru lágmarki. Hvers lenskar eru myndir, hverjir eru aðalleikarar, leikstjóri, hver klippir, hvenær var myndin gerð o.s.frv. Jú, "fór beint á toppinn í USA" og allar hinar væntanlega ekki. Hvar eru evrópskar myndir??? Indverskar myndir? Japanskar myndir? o.s.frv. arg... Allar praktískar upplýsingar vantar, s.s. hvar bíóin eru og hvaða strætó stoppar þar (jafnvel þótt strætóleiðum hafi illu heilli verið fækkað um helming við breytinguna stóru). Eftir langa dvöl erlendis leitaði ég t.d. dauðaleit að Borgarbíói í bænum, bjóst síst við að það væri á Akureyri...

Amerískt sjónvarp. Sjónvarpsdagskrá í dagblöðum er mjög ábótavant enda mikið um endurtekið efni en það er engin afsökun; það er ekki nokkur sjens að lesa út úr dagskrám hvort eitthvað sé varið í neitt þar. Sjálfstætt mat blaðamanna varla til. Má eflaust þakka fyrir að dagskráin passi við daginn...

Svo fyllir Morgunstund KK á Rás 1 mælinn með amerískri kántrítónlist í morgunsárið... æ, andskotinn.

ps Annars hefur KK þægilega rödd og er hógvær og fínn í kynningum. 


mbl.is Milos Forman heiðursgestur á kvikmyndahátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vergar blóðsugur

Álrisarnir ganga á lagið og færa skuldir yfir á dótturfélögin á Íslandi til að borga sem minnst: gesturinn sest upp, býður í partí og étur okkur út á gaddinn. Skuldir dótturfélaganna virðast beinlínis vera 40 % af vergri landsframleiðslu (VLF), samkvæmt forsíðufrétt Fréttablaðsins. Bitinn stendur í hálsi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og skapar okkur enn verra ástand. Hvernig væri að kenna þessum álrisum mannasiði og vísa þessum skuldum dótturfélaganna til föðurhúsanna? Fríðindin enn og aftur á kostnað okkar. Kunna íslenskir forstjórar þessara dótturfélaga ekki að skammast sín...
mbl.is Lítil arðsemi af orkuvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband